Um tegundina

Hvernig hundur er standard Schnauzer ?

     Schnauzer er þekktur sem "the dog with the human brain" (hundurinn með mannsheilann), en hann er talinn vera einn af gáfuðustu hundum í heimi. Upprunaland schnauzer er Þýskaland og var hann fyrst notaður sem varð- og vinnuhundur, en í dag er hann aðallega félagi og vinnu-hundur. Ræktaðar eru þrjár stærðir af schnauzer og er standard schnauzerinn elstur þeirra. Heimildir eru til um hann allt frá 14. öld. Hin afbrigðin eru risa (giant) schnauzer og dverg (miniature) schnauzer. Um aldir hafa myndlistarmenn málað myndir af þessum hundi og elsta málverkið þar sem má sjá schnauzer, er líklega málverk eftir Durers af Maríu mey og dýrunum frá 1492. Þó svo að mikið sé til af gömlum heimildum um schnauzer hunda þá er uppruni þeirra óljós. Sumir halda því fram að forfeður hans séu strýhærður þýskur pinscher og schäfer-púðli. Aðrir vilja meina að hann hafi orðið til við pörun tveggja útdauðra tegunda sem er stríhærður hundur, hugsanlega terrier-hundur, og bjórhundur frá miðöldum. Og svo eru enn aðrir sem eru sannfærðir um að schnauzer eigi rætur sínar að rekja til nautgripahunda eins og t.d. bouvis des flanders, sem er líkur schnauzer í útlit.

     Schnauzer hundar voru hafðir til sveita hér áður fyrr og voru notaðir sem vinnuhundar. Þeir þóttu afskaplega góðir í að veiða rottur, mýs og önnur nagdýr sem sóttu í korngeymslur, hesthús og önnur híbýli og hafa alltaf fengið fyrstu einkunn sem mjög góðir heimilishundar. Schnauzer var sýndur sem afbrigði af pinscer-hundi allt til ársins 1918 en þá sameinuðust schnauzer- og pinscherfélögin í Köln.

     Þeir sem kynnast schnauzer hrífast fljótt af þessum gáfaða hundi því hann á mjög auðvelt með að heilla fólk með gáfum, glettni og áræðni sinni. Schnauzer er frábær fjölskylduhundur, góður varðhundur og hefur orð á sér fyrir að vera barngóður. Meira að segja kemur það fram í staðli hans hjá FCI hversu góður fjölskylduhundur hann er og líður honum best með fjölskyldunni sinni. Hann er sterklegur og aðlaðandi, glaðlyndur og mjög námsfús. Hann hefur mjög gott þefskyn og honum þykir gaman að nota nefið. Mjög auðvelt er að kenna honum ýmsar kúnstir. Standard schnauzer er mjög heilbrigt kyn og lítið um arfgenga sjúkdóma hjá þeim. Samkvæmt staðli FCI á standard schnauzer að vera 45 - 50 cm á hæð og um 14 - 20 kg. Hann er með svo kallað kassalaga útlit, en það er að hæð á herðakamb er jafnlöng og búklengdin. Til eru tvö litaafbrigði í standard stærðinni og eru þeir ýmist svartir eða pipar&salt. Báðir litirnir eru til á Íslandi. Líftími hans er um 12 - 14 ár. Schnauzer er með tvöfaldan feld, stríhærður stífur yfirfeldur og mjúkur undirfeldur sem liggur nálægt skinninu. Vegna þessa felds þolir hann vel veðrið hér á Íslandi. Hann fer ekki úr hárum en þarf í staðin feldhirðu, þ.e.a.s. ef hann á að vera sýningarhæfur, en þá þarf að reyta hann reglulega og svo er hann rakaður á eyrum, hálsi og afturenda. Þeir hundar sem ekki á að sýna má raka og er mun minni vinna við það. En alltaf þarf að greiða lappahár og skegg reglulega. Best er að vera í samráði við ræktanda sinn eða hundasnyrta hvað varðar feldhirðuna. Standard schnauzer þarf þó nokkra hreyfingu og ætti ekki að vera mikið lokaður innandyra.

 

Höfundur : Sigrún Valdimarsdóttir

Nánari upplýsingar og myndir einnig á

Facebook sem “Sigrún Black Standard”
https://www.facebook.com/black.standard.1

 

Upplýsingar fengnar :

Hundabókin

Wikipedia

Deildarsíðu Schnauzer